Enski boltinn

Rio óánægður með drykkjumenninguna í enska boltanum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Knattspyrnumenn á Englandi hafa verið duglegir við það að komast á forsíður blaðanna fyrir drykkjulæti. Rio Ferdinand, leikmaður Man. Utd, segir að leikmenn geti ekki hagað sér eins og kjánar ef þeir ætli að halda sig á toppnum.

Ferdinand viðurkennir að áfengi sé hluti af fótboltamenningunni. Hann segir að leikmenn þurfi ekki að haga sér eins og munkar en þeir verði þó að haga sér sómasamlega.

"Menn þurfa að haga sér og axla ábyrgð. Það er spilað þétt í nútímafótbolta og menn geta því ekki leyft sér að hrynja ærlega í það milli leikja. Menn gerðu það þegar ég var að alast upp en það er ekki hægt í dag," sagði Ferdinand.

"Menn geta ekki verið að detta í það ef þeir eru að mæta liði með menn í toppformi. Þá verða menn undir í slagnum. Ef leikmenn ætla að haga sér þannig í dag þá munu þeir aldrei ná alveg á toppinn.

"Metnaður leikmanna og vilji til þess að vinna ætti að duga til þess að menn sitji á sér. Auðvitað gefst mönnum tækifæri til þess að skemmta sér ærlega en menn mega það ekki ef það er leikur í miðri viku.

"Ég er ekki að segja að menn eigi að haga sér eins og munkar. Menn verða einfaldlega að velja rétt," sagði Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×