Enski boltinn

Wayne Rooney gæti spilað á móti Wigan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/NordicPhotos/Getty
Wayne Rooney gæti spilað á nýjan leik með Manchester United á móti Wigan um næstu helgi en hann mun byrja að æfa á fullu með liðinu í þessari viku. Rooney hefur verið frá í meira en mánuð vegna ökklameiðsla.

Rooney fór í endurhæfingu til Bandaríkjanna og átti í fyrstu að vera frá fram í lok nóvember. Hann spilaði síðast með United-liðinu í 2-2 jafntefli á móti West Brom 16. október síðastliðinn.

„Mun hann spila? Við munum skoða hann betur og meta stöðuna fyrir helgi," sagði Mike Phelan, aðstoðarstjóri Manchester United. „Wayne er búinn að æfa vel og æfingaáætlunin sem hann fór í gegnum hefur gengið mjög vel. Þetta kemur allt betur í ljós seinna í vikunni," sagði Phelan.

Rooney meiddist á æfingu fyrir Bursaspor-leikinn í Meistaradeildinni sem fram fór 19. október. Hann tilkynnti síðan að hann væri á förum frá Old Trafford en snérist síðan hugur nokkrum dögum seinna og skrifaði undir nýjan fimm ára samning.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Wayne Rooney kemur út úr þessu hléi en fyrir það hafði hann aðeins skorað tvisvar í 21 leik með Manchester United og enska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×