Fótbolti

Hvít-Rússar slógu Ítali út í umspili fyrir EM 21 árs liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli gat ekki spilað með ítalska 21 árs liðinu vegna meiðsla.
Mario Balotelli gat ekki spilað með ítalska 21 árs liðinu vegna meiðsla. Mynd/AFP

Íslenska 21 árs landsliðið mætir ekki Ítölum á Evrópumótinu í Danmörku næsta sumar. Það kom í ljós í dag þegar Hvít-Rússar slógu Ítali út með 3-0 sigri í seinni umspilsleik þjóðanna. Spánn og Tékkland fóru hinsvegar örugglega áfram eftir örugga sigra á útivelli.

Ítalir voru í ágætum málum eftir 2-0 sigur á Hvít-Rússum í fyrri leiknum á Ítalíu en eftir venjulegan leiktíma var staðan 2-0 fyrir Hvíta-Rússland og því þurfti að framlengja. Oleg Veretilo skoraði síðan þriðja mark Hvít-Rússa á sjöttu mínútu framlengingarinnar.

Spánn vann 3-0 sigur í Króatíu og þar með 5-1 samanlagt. Mörk Spánverja í dag skoruðu þeir Álvaro Domínguez (Atlético Madrid), Adrián (Deportivo de La Coruña) og Jeffren (Barcelona).

Tékkar unnu 2-0 sigur í Grikklandi og þar með 5-0 samanlagt.

Sjö þjóðir (af átta) eru nú búnar að tryggja sér sæti á EM í Danmörku en auk gestgjafana og Íslendinga þá munu Svisslendingar, Englendingar, Hvít-Rússar, Spánverjar og Tékkar keppa í úrslitakeppninni sem fer fram í júní á næsta ári.

Síðasti umspilsleikurinn stendur nú yfir en þar mætast Úkraína og Holland í Úkraínu. Úkraínumenn unnu fyrri leikinn 3-1 og það bendir því allt til þess að þeir verði áttunda liðið inn í keppnina.

Það verður síðan dregið í tvo fjögurra liða riðla 9. nóvember í Álaborg í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×