Enski boltinn

Eiður Smári í viðtali í The Sun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári.
Eiður Smári.
Eiður Smári Guðjohnsen var í ítarlegu viðtali í breska götublaðinu The Sun í dag þar sem hann rifjaði upp tímabilið þegar hann varð fyrst enskur meistari með Chelsea.

Eiður var lykilmaður með Chelsea tímabilið 2004-5 þegar liðið varð meistari í fyrsta sinn í 50 ár. Hann rifjaði upp daginn sem liðið tryggði sér titilinn en það var á útivelli gegn hans gamla félagi, Bolton.

„Þetta var fyrsti titillinn minn og ég held reyndar að þetta hafi verið fyrsti titillinn hjá öllum strákunum," sagði Eiður Smári.

„Jose Mourinho lét alltaf leikmenn halda ræðu fyrir liðið fyrir leikina. Ég gerði það fyrir fyrsta leik tímabilsins og ég var ótrúlega stressaður - það hefði ekki verið jafn taugatrekkjandi að spila fyrir framan 100 þúsund áhorfendur," rifjar Eiður Smári upp.

„En þetta var fyrir leik gegn Manchester United. Ég sagði eitthvað á þá leið að það væru 38 þrep sem þyrfti að klífa til að vinna þessa deild. Þetta væri eitt það allra mikilvægasta - að vinna Manchester United. Ég sagði að við skyldum því fara út, byrja að klífa þessi þrep og vinna leikinn. Og við unnum," sagði Eiður.

„Svo, í apríl, bað Jose mig um að gera þetta aftur fyrir leikinn Bolton á Reebok-vellinum. Með sigri yrðum við meistarar. Ég byrjaði rólega og sagði: „Hér erum við staddir, einum leik frá meistaratitlinum. Ef við vinnum þennan leik verður þetta besti dagur í lífum okkar allra." En svo byrjaði ég að öskra og blóta og þetta fór allt úr skorðum. En þetta virkaði þó, þrátt fyrir það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×