Enski boltinn

Ferguson: Alveg óskiljanlegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gat ekki útskýrt hvernig hans menn fóru að því að missa 2-0 forystu gegn West Brom á heimavelli í 2-2 jafntefli.

Ferguson ákvað að byrja með Wayne Rooney á bekknum og virtist það ekki koma að sök. United komst snemma í 2-0 forystu en fékk á sig tvö klaufaleg mörk í upphafi síðari hálfleiks og þar við sat.

„Þetta er alveg óskiljanlegt og ég er mjög svekktur," sagði Ferguson eftir leikinn. „Ef við værum miðlungslið væri ágætt að segja að við séum enn ósigraðir í deildinni. En fyrir okkur er það ekki nógu gott," bætti hann við en þetta var fimmta jafntefli United í átta leikjum í deildinni.

„En stundum er betra að vera einu marki yfir en tveimur. Þá er einbeiting leikmanna betri."

Síðara mark West Brom var skrautlegt en þá missti Edwin van der Sar boltann eftir saklausa fyrirgjöf frá vinstri.

„Edwin van der Sar hefur verið að spila í 25 ár og gerði sjálfsagt síðast svona mistök í barnaskóla."

„Maður verður bara að hrista þetta af sér. Þetta eru ekki afgerandi úrslit fyrir okkur í deildinni en þetta má ekki halda áfram á þessari braut."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×