Enski boltinn

Englendingur mun taka við enska landsliðinu af Capello

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Mynd/AFP
Enska knattspyrnusambandið hefur gefið út þann vilja sinn að ráða Englending sem þjálfara enska landsliðsins þegar Fabio Capello hættir með liðið. Ítalinn er með samning fram yfir Evrópukeppnina 2012.

„Það er sjónarmið allra hér að enskur þjálfari sé bestur í það starf að taka við landsliðinu af Capello," sagði Adrian Bevington, yfirmaður landsliðsmála.

Capello hefur verið undir pressu í enskum fjölmiðlum eftir að enska liðið steinlá á móti Þjóðverjum í 16 liða úrslitum á HM í Suður-Afríku í sumar.

Hann fékk meðal annars harða gagnrýni í síðustu viku fyrir hvernig hann "henti" David Beckham út úr landsliðinu í beinni útsendingu í sjónvarpi og án þess að vera eitthvað búinn að ræða framtíðina við Beckham sem hefur leikið 115 landsleiki fyrir England.

Fabio Capello er aðeins annar útlendingurinn sem þjálfar enska landsliðið en hinn var Svíinn Sven-Göran Eriksson sem stýrði landsliðinu frá 2001 til 2006.  Steve McClaren þjálfaði landsliðið í millitíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×