Innlent

Heilu stöðuvötnin gufuð upp á hálendinu

Kristján Már Unnarsson skrifar

Ein stærstu stöðuvötn á miðhálendi Íslands, Kjalvötn, eru horfin. Vatnamælingamaður, sem mælt hefur fjallavötn um áratugaskeið, segist aldrei hafa séð hálendið jafn þurrt og nú, - grunnvatn sé í sögulegu lágmarki.

Kjalvötn eru norðvestan Þórisvatns og samkvæmt landakortum ættu þau að vera helmingi stærri en Elliðavatn. Nú sést þarna ekkert nema brúnn leirbotn.

Undir venjulegum kringumstæðum væru þarna einhver stærstu náttúrulegu vötnin á hálendinu við Sprengisandsleið. En nú bregður svo við að Kjalvötn eru, í bókstaflegri merkingu, gufuð upp.

Fáir þekkja vötnin á hálendinu betur en Sigurður Páll Ásólfsson, bóndi á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal, og hann segir að hér sé venjulega fimm til sex metra djúpt vatn. Hann segir Kjalvötnin tvö vötn en nú sé botninn þurr og ekkert að sjá.

Þetta hefur hann aldrei séð gerast áður og hefur hann þó í þrjá áratugi mælt vötnin fyrir Landsvirkjun, og raunar smalað hálendið frá unga aldri. Lækir sem alltaf sáust eru líka horfnir víða á hálendinu.

Hann telur skýringuna svo sem ekki flókna: Það hefur lítið rignt á hálendinu í sumar og nánast ekkert snjóað þar tvö ár í röð. Auk þess hafi verið það hlýtt að allt vatn hafi gufað upp. Það séu fyrstu og fremst jökulárnar sem séu að skila vatni til sjávar en bergvatnsár og grunnvatn séu í sögulegu lágmarki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.