Enski boltinn

Chelsea tapaði aftur og United búið að ná þeim að stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Bowyer skorar hér sigurmark Birmingham.
Lee Bowyer skorar hér sigurmark Birmingham. Mynd/AP
Manchester United komst upp að hlið Chelsea á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Wigan og óvænt 1-0 tap Chelsea á móti Birmingham í dag. Wayne Rooney lék 34 síðustu mínúturnar með United en þetta var fyrsti leikur hans síðan að hann skrifaði undir nýjan fimm ára samning.

Chelsea tapað sínum öðrum leik í röð þegar liðið tapaði 1-0 fyrir Birmingham á St. Andrews. Birmingham komst upp úr fallsæti með þessum sigri sem var sá fyrsti hjá liðinu á móti Chelsea frá upphafi.

Lee Bowyer skoraði sigurmark Birmingham á 17. mínútu en markið kom gegn gangi leiksins. Cameron Jerome skallaði boltann fyrir Bowyer sem skoraði af yfirvegun. Birmingham átti ekki fleiri skot á markið í leiknum en Ben Foster átti stórleik í markinu.

Það hefur lítið gengið hjá Chelsea eftir að þeir létu Ray Wilkins fara í síðustu viku því liðið tapaði einnig 3-0 á heimavelli á móti Sunderland um síðustu helgi. Liðið er því bæði marka- og stigalaust í síðustu tveimur leikjum.

Manchester United vann 2-0 sigur á Wigan eftir að hafa verið tveimur fleiri í hálftíma. Wayne Rooney kom inn á sem varamaður en tókst ekki að skora.

Það gekk lítið hjá Manchester United í fyrri hálfleiknum og það þurfti mark úr óvæntri átt til þess að brjóta ísinn. Eftrirleikurinn var síðan auðveldur eftir að Wigan missti tvo menn af velli með rautt spjald með aðeins tveggja mínútna milibili skömmu eftir að Wayne Rooney kom inn á sem varamaður.

Patrice Evra kom Manchester United í 1-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks með sínu fyrsta markið fyrir félagið í þrjú og hálft ár. Evra skallaði þá fyrirgjöf Ji-Sung Park í markið af stuttu færi.

Antolin Alcaraz (tvö gul á 59. mínútu) og Hugo Rodallega (beint rautt á 61. mínútu) voru reknir af velli með aðeins tveggja mínútna millibili og þá var þetta búið spil fyrir Wigan.

Javier Hernández skoraði laglegt skallamark eftir sendingu Rafael da Silva á 76. mínútu og þrátt fyrir ágæt færi þá tókst United ekki að bæta við mörkum.

Bolton vann 5-1 stórsigur á Newcastle og komst upp í 4. sætið í deildinni. Þetta var þriðji sigur liðsins í síðustu 4 leikjum. Svíinn Johan Elmander og Kevin Davies skoruðu báðir tvö mörk fyrir Bolton.

Stoke vann þriðja sigur sinn í röð þegar liðið vann 3-0 útisigur á West Bromwich Albion. Eiður Smári Guðjohnsen fékk ekekrt að spreyta sig eins og í síðustu leikjum. Vítaspyrnur frá Matthew Etherington og Jonathan Walters komu Stoke í 2-0 og Walters sem kom inn á sem varamaður bætti síðan við öðru marki sínu í lokin.



Úrslit og markaskorar í ensku úrvalsdeildinni í dag:

Arsenal-Tottenham 2-3

1-0 Samir Nasri (9.), 2-0 Marouane Chamakh (27.), 2-1 Gareth Bale (50.), 2-2 Rafael van der Vaart, víti (67.), 2-3 Younes Kaboul (85.)

Birmingham - Chelsea 1-0

1-0 Lee Bowyer (17.)

Blackpool - Wolverhampton 2-1

1-0 Luke Varney (3.), 2-0 Marlon Harewood (44.), 2-1 Kevin Doyle (86.)

Bolton - Newcastle 5-1

1-0 Kevin Davies, víti (18.), 2-0 Chung-Yong Lee (38.),3-0 Johan Elmander (50.), 3-1 Andrew Carroll (52.), 4-1 Johan Elmander (71.), 5-1 Kevin Davies, víti (90.+3)

Grétar Rafn Steinsson var á varamannabekknum hjá Bolton.

Manchester United - Wigan 2-0

1-0 Patrice Evra (45.), 2-0 Javier Hernández (76.)

West Bromwich Albion - Stoke 0-3

0-1 Matthew Etherington, víti (55.), 0-2 Jonathan Walters, víti (85.), 0-3 Jonathan Walters (90.+3)

Eiður Smári Guðjohnsen var allan leikinn á varamannabekknum hjá Stoke






Fleiri fréttir

Sjá meira


×