Enski boltinn

Toure gerir lítið úr hálfleiksrifildi Mancini og Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez og Roberto Mancini.
Carlos Tevez og Roberto Mancini. Mynd/AP
Kolo Toure segir ekkert ósætti vera á milli fyrirliðans Carlos Tevez og knattspyrnustjórans Roberto Mancini þótt að þeir hafi rifist heiftarlega í hálfleik á leik Manchester City og Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Carlos Tevez var ósáttur með varnartaktík Roberto Mancini en ítalski stjórinn lét Argentínumanninn vita af því hver ræður. Varamaðurinn Adam Johnson skoraði sigurmark Manchester City í leiknum skömmu eftir að hann kom inn á völlinn og jók þar með á sóknarþunga City-liðsins.

„Menn sögðu það sem þurfti að segja í hálfleik," sagði Kolo Toure sem missti fyrirliðabandið til Carlos Tevez fyrir tímabilið. "Stjórinn notaði réttu orðin við okkur því við unnum betur í seinni hálfleik og erum allir mjög ánægðir með að hafa náð í öll þrjú stigin," sagði Kolo Toure við Skysports.

„Við erum í 2. sæti í deildinni og það ætti að gefa öllu liðinu mikið sjálfstraust. Við verðum bara að passa upp á halda okkur á þessum róli og ná upp stöðugleika," sagði Toure.

„Við erum nýtt lið og það er enn miklir möguleikar fyrir okkur að bæta okkar leik. Það er því mjög gott að vera í öðru sæti á þessum tímapunkti," sagði Toure.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×