Enski boltinn

Newcastle vann 3-1 sigur á Liverpool í fyrsta leik Pardew

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton og Kevin Nolan skoruðu báðir fyrir Newcastle í kvöld.
Joey Barton og Kevin Nolan skoruðu báðir fyrir Newcastle í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle byrjaði frábærlega undir stjórn Alan Pardew í kvöld þegar liðið vann 3-1 sigur á Liverpool á St James' Park í ensku úrvalsdeildinni. Newcastle-liðið komst með þessum sigri upp í áttunda sæti en Liverpool heldur áfram skelfilegu gengi sínu á útivelli undir stjórn Roy Hodgson.

Kevin Nolan kom Newcastle í 1-0 eftir skallasendingu Andy Carroll á 15. mínútu en það var reyndar smá rangstöðulykt af markinu. Dirk Kuyt jafnaði leikinn á 49. mínútu og það virtist vera að stefna í jafntefli þegar vandræðagemlingarnir Joey Barton og Andy Carroll skoruðu báðir og tryggðu Newcastle 3-1 sigur.

Joey Barton skoraði fyrra markið á 79. mínútu eftir sendingu Carroll og Carroll skoraði síðan þriðja markið með laglegu langskoti í uppbótartíma.

Newcastle fór upp fyrir Liverpool með þessum sigri, liðin hafa bæði 22 stig í 8. og 9. sæti en Newcastle-liðið er með betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×