Fótbolti

Hent út úr hollenska landsliðinu fyrir að fótbrjóta mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel de Jong í leik með hollenska landsliðinu á Laugardalsvelli.
Nigel de Jong í leik með hollenska landsliðinu á Laugardalsvelli. Mynd/Vilhelm

Nigel de Jong, miðjumaður Manchester City og hollenska landsliðsins, verður ekki með Hollendingum á móti Moldavíu og Svíþjóð í undankeppni EM.

Bert van Marwijk, þjálfari hollenska liðsins, ákvað að velja ekki þennan fastamann í liðið vegna þess að Nigel de Jong fótbraut Hatem Ben Arfa, leikmann Newcastle í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Bert van Marwijk sagði í dag að hann hefði engra annara kosta völ en að sleppa því að velja Nigel de Jong í liðið sitt. Nigel de Jong tæklaði Ben Arfa svo illa strax á 3. mínútu leiksins að franski landsliðsmaðurinn braut tvö bein í vinstri fæti.

Þetta er ekki fyrsta ruddarlega tækling hollenska landsliðsmannsins því fáir eru búnir að gleyma því þegar hann tæklaði Spánverjann Xabi Alonso í brjóstkassann í úrslitaleik HM í Suður-Afríku í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×