Enski boltinn

Redknapp: Landsliðsþjálfarar fá það alltaf óþvegið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp óttast allt umstangið sem fylgir því að taka að sér starf landsliðsþjálfara Englands. Hann hefur áður viðurkennt að það væri þó erfitt að hafna slíku starfstilboði.

Fabio Capello er núverandi landsliðsþjálfari Englands en samningur hans rennur út eftir EM 2012. Redknapp er sagður einn sá líklegasti til að taka við af honum en hann er nú stjóri Tottenham.

„Þetta er erfið spurning," sagði hann í samtali við News of the World. „Ég sit ekki heima hjá mér og hugsa um landsliðsþjálfarastarfið. Það fylgja því mikil leiðindi."

„Þeir eru á manni frá fyrsta degi og öllum þeim sem taka við þessu starfi er slátrað. Hvort sem það er Capello eða McClaren. Meira að segja Bobby Robson fékk að kenna á því. Það fengu þeir allir - Graham Taylor og Glenn Hoddle líka."

„Þetta er því erfið spurning sem ég þarf líklega ekki að svara fyrr en eftir tvö ár. Hver veit hvernig málin standa eftir tvö ár? Það getur mikið breyst á þeim tíma."

„Vonandi koma nokkrir af þeim yngri sem hafa verið að standa sig vel til greina. Það er líklegt að einhver þeirra taki við starfinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×