Enski boltinn

Ancelotti: Manchester United treystir of mikið á Wayne Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney, framherji Manchester United.
Wayne Rooney, framherji Manchester United. Mynd/AFP

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, er sannfærður um það að breidd liðsins af sterkum sóknarmönnum geti gert útslagið í barátunni við Manchester United og Arsenal um enska meistaratitilinn. Chelsea er komið niður í 3. sæti deildarinnar en mætir Birmingham City í kvöld.

Framherjarnir Didier Drogba og Salomon Kalou eru mættir á nýjan leik á Brúnna eftir að landslið Fílabeinsstrandarinnar datt út úr átta liða úrslitum Afríkukeppninnar.

Ancelotti beindi sjónum sínum að markahæsta manni ensku úrvalsdeildarinnar, Wayne Rooney, sem skoraði 4 af 19 deildarmörkum sínum í 4-0 sigri United á Hull um síðustu helgi.

„Það gæti orðið erfitt ef að United myndi missa Rooney. Hann er besti framherjinn hjá Manchester United og einn sá besti í heimi. Hann er sannur sigurvegari og ekki bara góður að skora því hann er einnig mikill liðsmaður," sagði Carlo Ancelotti og nefndi dæmi að hann hafi séð hann spila í vinstri bakverðinum nokkrum sinnum í fyrra þegar Rooney var að hjálpa félögum sínum í vörninni.

„Rooney skiptir mjög miklu máli fyrir United en við höfum að sama skapi fleiri möguleika ef við missum Didier Drogba. Drogba er mikilvægur leikmaður fyrir okkur en við lékum mjög vel án hans. Ég hef möguleika á að nota annan toppframherja, Nicolas Anelka, í staðinn," sagði Ancelotti en Chelsea skoraði 14 mörk í 3 leikjum á meðan Drogba tók þátt í Afríkukeppninni. Þeir Drogba og Anelka eru þó oftast saman í framlínunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×