Talsmaður leikkonunnar Penélope Cruz hefur staðfest að leikkonan og eiginmaður hennar, spænski leikarinn Javier Bardem, eigi von á sínu fyrsta barni í byrjun næsta árs.
Bardem og Cruz, sem er komin tæpa fimm mánuði á leið, giftu sig í júlí í látlausri athöfn á Bahama-eyjum. Þau fóru að rugla saman reytum þegar þau léku á móti hvort öðru í kvikmynd Woody Allen, Vicky Cristina Barcelona, árið 2008.
Systir leikkonunnar sagði í nýlegu viðtali við spænska tímaritið Hola! að það kæmi henni ekki á óvart ef barn væri á leiðinni.
„Þau hafa sýnt heiminum að þau eru ástfangin og það væri aðeins eðlilegt ef þau vildu eignast börn bráðum," sagði systir leikkonunnar.