Erlent

Biden ræðir við Palestínumenn og Ísraela

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, lenti í Jerúsalem í gærkvöldi.
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, lenti í Jerúsalem í gærkvöldi. Mynd/AP
Varaforseti Bandaríkjanna er kominn til Ísraels en þar hyggst hann gera hvað hann getur til að fá Ísraela og Palestínumenn til að setjast á nýjan leik við samningaborðið.

Frá því að ný ríkisstjórn tók við í Ísrael á síðasta ári hafa friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs gengið illa. Til að mynda lét utanríkisráðherra Ísraels hafa eftir sér í haust að engir friðarsamningar við Palestínumenn væru mögulegir næstu árin. Þá vilja leiðtogar Palestínumanna lítið ræða við Ísraela vegna landtökubyggðar þeirra á hernumdu svæðunum og hefur Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, neitað að hitta Netanyahu.

Þessu vill Barck Obama, Bandaríkjaforseti, breyta og ber heimsókn varaforsetans Joe Biden þess skýr merki. Þá hefur George Mitchell, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í málefnum Mið-Austurlanda, verið tíður gestur á svæðinu síðastliðið ár. Biden fundar með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, í Jerúsalem í dag sem og Tzipi Livni, leiðtoga stjórnarandstöðunnar og Simon Peres, forseta landsins. Á morgun færir Biden sig yfir á Vesturbakkann þar sem hann mun hitta leiðtoga Palestínumanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×