Innlent

Svindlararnir halda illa fengnum hlut

Mynd/GVA

Þeir sem svíkja bætur út úr Tryggingastofnun ríkisins eru ekki krafðir um endurgreiðslu jafnvel þótt upp um þá komist. Að sögn Rögnu Haraldsdóttur, staðgengils forstjóra stofnunarinnar, er þetta vegna erfiðrar sönnunarfærslu þegar fólk skráir lögheimili á rangan stað.

„Nú eru til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu tillögur frá okkur um viðurlög líkt og önnur Norðurlönd hafa komið á hjá sér," segir Ragna. Stofnunin vilji sjá refsingar í bótasvikamálum líkt og í öðrum fjársvikamálum. „Það væri bæði til þess að varna því að menn geri þetta og til þess að þeir sæti viðurlögum ef þeir hafa rangt við," segir Ragna.

Fréttablaðið sagði í gær frá tveimur fimm barna fjölskyldum sem sviku út bætur með því að fjölskyldufaðirinn skráði lögheimili sitt utan heimilis fjölskyldunnar. Önnur fjölskyldan fékk yfir sjö hundruð þúsund krónur í bætur mánaðarlega. Þar af voru um 170 þúsund krónur sem hún átti ekki rétt á. Á sjötta hundrað svikamál af ýmsu tagi voru afhjúpuð hjá TR í fyrra.

Halla Bachmann, forstöðumaður hjá TR, segir að í slíkum málum þurfi fólk hreinlega að fallast á það sjálft að það sé ekki að fara rétt að til þess að stofnunin geti í framhaldinu lækkað bætur þess til samræmis við raunveruleikann. Halla segir að eftir að frétt Fréttablaðsins birtist í gær hafi tuttugu trúverðugar ábendingar borist um hugsanleg svik. Halla minnir á að á heimasíðu stofnunarinnar er sérstakur hnappur fyrir þá sem vilja láta vita ef þá grunar að einhver sé að svíkja út bætur.

„Við hvetjum fólk til að láta okkur vita," segir hún. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×