Innlent

Almenn fíkniefnaleit er ekki forvörn

Skólameistari Tækniskólans bað lögregluna að leita að fíkniefnum þar í febrúar. Ráðherra segir að slík leit stangist á við stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Skólameistari Tækniskólans bað lögregluna að leita að fíkniefnum þar í febrúar. Ráðherra segir að slík leit stangist á við stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. fréttablaðið/pjetur
Almenn fíkniefnaleit í framhaldsskólum getur ekki talist hluti af almennu forvarnastarfi framhaldsskólanna, að mati Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Hún hefur sent öllum skólastjórum framhaldsskóla bréf og tjáð þeim þá afstöðu sína.

Þar segir ráðherra að þrátt fyrir að forvarnir séu stór hluti af starfi framhaldsskóla geti almenn leit ekki talist hluti þeirra. Þar er vísað til leitar sem fram fór í Tækniskólanum í febrúar. Í því tilfelli var dyrum lokað og farið með fíkniefnahunda um húsnæði skólans. Í bréfi ráðherra eru skólastjórar minntir á að slíkar aðgerðir samræmist hvorki stjórnarskrá, Mannréttindasáttmála Evrópu né ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Ekki eigi að grípa til slíkra aðgerða nema lagagrundvöllur sé traustur og ákveðin mál komi upp innan skólanna sem bregðast þurfi við með ákveðnum hætti.

„Fíkniefnaleit sem framkvæmd er með framangreindum hætti er óneitanlega harkaleg aðgerð gegn almennum nemendum sem þar sækja nám og er jafnvel ekki kunnugt um tilefni svo viðamikillar og íþyngjandi leitar,“ segir í bréfi ráðherra.

- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×