Enski boltinn

Mancini: Ég mun breyta um taktík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur lofað því að spila meiri sóknarknattspyrnu þegar hann verður kominn með fullskipað lið. Mancini hefur aðeins notað einn framherja (Carlos Tevez) í fyrstu leikjum tímabilsins en stillir þess í stað upp þremur varnartengiliðum inn á miðjunni.

Carlos Tevez er ekki alltof sáttur með að puða einn og yfirgefinn í framlínunni og lenti í rifildi við stjórann í hálfleik á síðasta leik liðsins á móti Newcastle um síðustu helgi.

Mancini segist vera að stilla liði sínu upp miðað við hvaða leikmann hann hefur yfir að ráða en margir af sókndjöfrustu leikmönnum City-liðsins hafa verið á meiðslalistanum það sem af er tímabilinu.

„Við spilum svona útaf nauðsyn. Emmanuel Adebayor er nýkominn úr meiðslum og Mario Balotelli er enn meiddur. Sóknarbakverðirnir Jerome Boateng og Aleksandar Kolarov hafa líka verið frá vegna meiðsla og ég reyni að stilla liðinu upp þannig að við getum náð góðum úrslitum. Ég mun breyta um taktík um leið og ég get valið úr öllum hópnum," sagði Roberto Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×