Enski boltinn

Ashley Young orðaður við Man Utd

Elvar Geir Magnússon skrifar

Manchester United er á eftir Ashley Young, vængmanni Aston Villa, samkvæmt enskum blöðum. Fréttir berast af því að Young sé ekki nægilega sáttur í herbúðum Villa en liðið hefur verið í basli það sem af er tímabili.

Samkvæmt The People er United að undirbúa 20 milljón punda boð í leikmanninn í janúar. Sú staðreynd að Young yrði löglegur í Meistaradeildinni gerir það að verkum að Sir Alex Ferguson vill fá hann strax eftir áramót.

Ef sú tilraun misheppnast mun United gera aðra atlögu að Young næsta sumar samkvæmt frétt blaðsins. Young er hugsaður til að fylla skarð Ryan Giggs sem er á síðustu metrunum á sínum ferli.

Þá er United einnig orðað við unglingalandsliðsmanninn enska Matthew Briggs sem er í herbúðum Fulham. Briggs er nítján ára og lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik með aðalliði Fulham á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×