Fótbolti

King ekki með gegn Alsír

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ledley King í leiknum í gær.
Ledley King í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Ledley King verður ekki með enska landsliðinu þegar það mætir Alsír á HM í Suður-Afríku á föstudaginn.

King meiddist í leik Englands og Bandaríkjanna í gær og þurfti að fara af velli í hálfleik. Það voru þó ekki hnémeiðslin sem hafa fylgt honum undanfarin ár sem voru að há honum nú heldur meiddist hann á nára.

„Ledley á við vandamál í vöðva að stríða og mun ekki spila í næsta leik," er haft eftir Fabio Capello í enskum fjölmiðlum í dag.

Capello telur þó að King ætti að ná leiknum gegn Slóveníu í lokaumferð riðlakeppninnar.

Það er talið líklegast að Jamie Carragher, sem kom inn á fyrir King í leiknum í gær, verði í byrjunarliði Englands á föstudaginn.

Gareth Barry ætti að vera orðinn klár í slaginn fyrir leikinn gegn Alsír og tekur væntanlega stöðu James Milner sem var skipta af velli eftir aðeins hálftíma í gær.

„Milner átti í vandræðum með hægri bakvörðinn og var kominn með áminningu. Ég hafði áhyggjur af seinni áminningunni," sagði Capello.

Þá er einnig talið líklegt að Emile Heskey verði áfram í byrjunarliði Englands en óvíst er hvort Capello muni skipta út Robert Green í markinu enda gerði hann stór mistök í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×