Enski boltinn

Þrekþjálfari Liverpool brjálaður út í Capello

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard sést hér eftir að hann meiddist í gær.
Steven Gerrard sést hér eftir að hann meiddist í gær. Mynd/AP
Darren Burgess, þrekþjálfari Liverpool, gagnrýndi Fabio Capello, þjálfara enska landsliðsins, harðlega í gærkvöldi vegna þess að Steven Gerrard var ennþá inn á vellinum þegar hann meiddist í lok tapsins á móti Frökkum.

„Hann sveik samkomulagið og hugsaði ekkert um sögu leikmannsins. Þetta var ófagmannlegt og nú þurfum við að borga fyrir þessi vinnubrögð. Þetta var skammarlegt," skrifaði Darren Burgess inn á Twitter-síðuna sína. Ensku fjölmiðlarnir komust í þetta áður en Burgess eyddi þessu út af síðu sinni 55 mínútum síðar.

Steven Gerrard lék fyrstu 85 mínútur leiksins áður en hann haltraði útaf vegna meiðsla aftan í læri. Þessi meiðsli gætu þýtt að Gerrard gæti verið frá í nokkrar vikur sem eru allt annað en góðar fréttir fyrir Liverpool.

„Ég sagði Liverpool að hann myndi spila í klukkutíma en það væri möguleiki. Þar sem að Garry Barry og Rio Ferdinand voru báðir meiddir þá þurfti ég að hafa reynslubolta inn á vellinum. Ég er samt mjög svekktur með að hann skyldi haga meiðst," sagði Capello.

„Liverpool getur ekki ráðið því hversu lengi leikmaður spilar með landsliðinu. Ég skil reiði þeirra en það er alltaf hætta á meiðslum þegar leikmenn eru að spila svona marga leiki í ensku úrvaklsdeildinni og í Evrópukeppnunum," sagði Capello.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×