Fótbolti

Stekelenburg: Suarez er besti markmaður HM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Martin Stekelenburg.
Martin Stekelenburg. AFP
Liðsfélagarnir hjá Ajax, Martin Stekelenburg markmaður og Luis Suarez mætast ekki í undanúrslitaleik Hollands og Úrúgvæ á morgun þar sem Suarez verður í banni. Stekelenburg sendi félaga sínum SMS í gær og útnefndi hann besta markmann HM til þessa.

Suarez tekur út leikbann en er líklega sáttur með það þar sem hann kom liðinu í raun áfram þegar hann varði með hendi gegn Gana.

Stekelenburg hefur staðið sig vel á HM og sagði við De Telegraaf í dag að hann hefði hrósað Úrúgvæjanum í hástert.

"Ég sendi honum SMS þar sem ég sagði að hann væri besti markmaður HM til þessa. Hann ætti að fá Lev Yashin verðlaunin," sagði Stekelenburg.

"En það sem skiptir máli er að hann má ekki spila. Það er mikið mál þar sem hann er frábær leikmaður," sagði markmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×