Enski boltinn

Roy Hodgson veit ekki hversu alvarleg meiðslin eru hjá Torres

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres haltrar útaf.
Fernando Torres haltrar útaf. Mynd/AP
Þetta var skelfilegur sunnudagur fyrir Liverpool í gær því auk þess að tapa á heimavelli á móti nýliðum Blackpool og sitja í fallsæti í fyrsta sinn í meira en 46 ár þá missti liðið aðalframherja sinn, Fernando Torres, útaf meiddann eftir aðeins tíu mínútur.

Fernando Torres haltraði útaf í upphafi leiks eftir að hafa meiðst á nára og tók David Ngog við sæti hans í liðinu. Torres hefur aðeins skorað eitt mark á tímabilinu til þessa og Liverpool-menn hafa verið að bíða eftir því að hann kæmist aftur í gang. Það verður eflaust einhver bið á því þar sem að ekki er ljóst hversu lengi hann verður frá vegna meiðslanna.

„Hann er tognaður á nára en ég veit ekki hversu alvarlegt það er," sagði Roy Hodgson, stjóri Liverpool eftir leikinn í gær. „Læknaliðið á eftir að skoða hann. Þetta gerðist mjög snemma í leiknum sem kom okkur mikið á óvart," sagði Hodgson

„Við vissum ekkert um nára-vandamál hjá honum. Ég veit ekki hvort að þetta gerðist þegar hann teygði sig eftir boltanum í leiknum eða hvenær hann tognaði," sagði Hodgson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×