Enski boltinn

Kuyt: Skelfilegt að hafa þetta hangandi yfir okkur í tvær vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Kuyt.
Dirk Kuyt. Mynd/AFP
Dirk Kuyt bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar eftir 2-1 tap á móti Blackpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær en tapið þýðir að Liverpool situr í fallsæti í fyrsta sinn í 46 ár.

„Þetta var virkilega, virkilega svekkjandi og örugglega eitt það erfiðasta tap sem ég hef upplifað hjá félaginu. Ég finn líka til með stuðningsmönnunum okkar," sagði Dirk Kuyt við staðarblaðið Liverpool Echo.

„Við lögðum okkur allir vel fram á æfingum fyrir leikinn og okkur fannst þetta vera kjörið tækifæri til að komast upp töfluna en því miður fór þetta ekki þannig," sagði Kuyt.

„Það er líka skelfilegt að hafa þetta hangandi yfir okkur í tvær vikur vegna landsleikjahlésins því allir í búningsklefanum myndu stökkva á tækifærið að bæta fyrir þenann leik sem fyrst. Þessi úrslit hafa ekki hjálpað okkur en við verðum bara að einblína á andann í liðinu í seinni hálfleiknum. Við verðum að tryggja það að við sínum hann í næsta leik," sagði Kuyt.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að við verðum lengi í fallbaráttu því að við erum með alltof gott lið til þess. Mestu vonbrigðin við þessa stöðu okkar er að við erum búnir að dragast svo langt aftur úr efstu liðunum í deildinni," sagði Kuyt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×