Enski boltinn

Ancelotti: Roman hefur lofað að reka hann ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, er öruggur í starfi þrátt fyrir skelfilegt gengi liðsins að undanförnu. Ítalinn segir að eigandinn Roman Abramovich ætli að standa með honum á meðan hann kemur Chelsea-liðinu aftur í gang.

Chelsea hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er komið niður í þriðja sæti deildarinnar á eftir Arsenal og Manchester United. Það hefur lítið gengið síðan að Roman rak aðstoðarstjórann Ray Wilkins en Ancelotti mun ekki fara sömu leið.

„Ég talaði við Roman eftir leikinn á miðvikudaginn," sagði Carlo Ancelotti en Chelsea tapaði þá 0-1 fyrir Marseille í Meistaradeildinni. „Hann sagði að ég hefði fullan stuðning hans og að hann skildi vel vandmálin hjá liðinu. Hann er að gera sitt allra besta til þess að styðja við bakið á öllum í liðinu," sagði Ancelotti.

„Ég óttast ekki um starfið mitt. Ég hef líka fullan stuðning frá leikmönnunum og það er það mikilvægasta. Það vita allir að þetta er ekki góður tími fyrir okkur en við verðum að gera allt sem við getum til að koma okkur aftur af stað sem fyrst," sagði Ancelotti.

Carlo Ancelotti, talar við leikmenn Chelsea.Mynd/AP
Chelsea mætir Tottenham á útivelli á morgun og svo eru líka framundan leikir á móti Manchester United og Arsenal. „Okkar markmið er að vinna þessa þrjá leiki á móti Spurs, Man Utd og Arsenal því við vitum að örlög okkar ráðast í þessum þremur leikjum," sagði Ancelotti.

„Við höfum getuna til þess að berjast um titilinn og við viljum nota Tottenham-leikinn til að koma okkur aftur af stað. Það halda allir að Chelsea sé ekki nógu gott lið til að berjast um titilinn af því að síðasti mánuður var ekki góður hjá okkur en við verðum með í baráttunni," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×