Íslenski boltinn

Ólafur Örn: Byrja á að koma sjálfstrausti í Grindavíkurliðið

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Ólafur Örn.
Ólafur Örn. GettyImages
Ólafur Örn Bjarnason segir að eina markmið sumarsins geti verið að halda Grindavíkurliðinu í deildinni. Hann er ánægður með að málið sé í höfn.

"Það er gott að það sé búið að keyra þetta í gegn. Grindavíkurliðið getur nú hætt að velta fyrir sér öllum mögulegum kostum og farið að einbeita sér að fótboltanum," sagði Ólafur við Vísi rétt í þessu.

Ólafur segir að málið hafi klárast á tveimur dögum og hann er ánægður með hversu vel Brann tók í að hann færi strax. Hann kemur þó til með að flakka á milli Íslands og Noregs þar sem hann spilar nokkra leiki með Brann út tímabilið.

"Þeir vildu leyfa mér að fara en eru í smá basli og ég held því áfram með þeim. Þeir vissu að þeir fengu aldrei pening fyrir mig og því gat ég farið frítt," sagði Ólafur.

Hann hefur menntað sig í Noregi og á aðeins eitt námskeið eftir til að klára allt þjálfaranám sem er í boði þar. "Eftir það er það bara UEFA Pro License," sagði Ólafur sem ætlar þó ekki að klára námið strax.

Hann á hús í Grindavík og ætlar að spila með liðinu. Ólafur spilar með Brann gegn Álasundi 6. júní en Brann er í næst neðsta sæti norsku deildarinnar og í mikilli fallbaráttu. Hlé er gert í norsku deildinni eftir þann leik í mánuð og kemur Ólafur Örn þá heim og tekur við Grindavíkurliðinu.

Í júlí fer hann aftur til Noregs og mun hann spila fjóra leiki með Brann, þann síðasta gegn Sandefjord 25. júlí en eftir þann leik kemur hann alfarið heim til Grindavíkur og mun jafnframt leika með liðinu eftir það

"Ég hef fylgst aðeins með liðinu heima og mér sýnist að fyrsta verkefnið verði að koma sjálfstrausti í liðið. Það segja allir að það búi mikið meira í því," sagði Ólafur sem verður með Milan Stefán Jankovic með sér sem aðstoðarþjálfara.

"Maður á örugglega eftir að reka sig á einhversstaðar en ég verð með góða menn með mér og stigin munu koma. Markmið okkar getur bara verið eitt eins og staðan er núna, að halda sér í deildinni," sagði nýráðinn þjálfari Grindavíkur, Ólafur Örn Bjarnason.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×