Íslenski boltinn

Ólafur Örn ráðinn þjálfari Grindavíkur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Ólafur Örn.
Ólafur Örn. GettyImages

Ólafur Örn Bjarnason hefur verið ráðinn þjálfari Grindavíkur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Grindvíkingar sendu frá sér.

Ólafur gerir fjögurra ára samning og verður Milan Stefán Jankovic aðstoðarþjálfari hans. Ólafur kemur frá Brann þar sem hann hefur spilað síðustu sjö ár.

"Viðræður við Brann gengu mjög vel og ljóst að Ólafur Örn nýtur mikillar virðingar í hjá félaginu sem vildi greiða götu hans þrátt fyrir afar erfiða stöðu en Brann krafðist ekki krónu fyrir Ólaf Örn en samningur hans við félagið rennur út næsta haust," segir í fréttatilkynningunni.

"Samkomulagið við Brann felst í því að hann verður bæði þjálfari Grindavíkur og leikmaður Brann þangað til í lok júlí. Ólafur spilar með Brann ákaflega þýðingamikinn leik gegn Álasundi 6. júní en Brann er í næst neðsta sæti norsku deildarinnar og í mikilli fallbaráttu. Hlé er gert í norsku deildinni eftir þann leik í mánuð og kemur Ólafur Örn þá heim og tekur við Grindavíkurliðinu."

"Í júlí fer hann aftur til Noregs og mun hann spila fjóra leiki með Brann, þann síðasta gegn Sandefjord 25. júlí en eftir þann leik kemur hann alfarið heim til Grindavíkur og mun jafnframt leika með liðinu eftir það. Þar sem félagaskiptaglugginn í Noregi opnar ekki fyrr en 1. ágúst getur Brann ekki fengið til sín nýjan varnarmann í stað Ólafs Arnar fyrr en þá og því varð þetta niðurstaðan í viðræðum félaganna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×