Enski boltinn

Rooney bað stuðningsmenn United loksins afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney fagnaði marki sínu gegn Rangers vel og innilega.
Wayne Rooney fagnaði marki sínu gegn Rangers vel og innilega. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney hefur loksins áttað sig á því að hann var alls ekki búinn að biðja stuðningsmenn Manchester United afsökunar á hegðun sinni.

Frægt er þegar að Rooney setti allt á hvolf hjá Manchester United í síðasta mánuði þegar hann neitaði að skrifa undir nýjan samning og gaf í skyn að hann vildi fara frá Manchester United.

En síðan, öllum að óvörum, skrifaði hann undir nýjan samning. Alex Ferguson, stjóri United, sagði að hann hefði beðið sig og leikmenn afsökunar og að hann myndi gera slíkt hið sama við stuðningsmenn félagsins.

En sú afsökunarbeiðni hefur aldrei komið, þar til nú.

Rooney á vítapunktinum.Nordic Photos / Getty Images

„Mér finnst eins og að ég hafi beðið stuðningsmenn afsökunar en allir segja að ég hafi ekki gert það," sagði Rooney. „Ef það er tilfellið vil ég biðjast afsökunar á mínum þætti málsins."

Rooney er nýbyrjaður að spila aftur eftir ökklameiðsli og skoraði sigurmarkið gegn Glasgow Rangers í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið. Þar var hans fyrsti leikur í byrjunarliði United og hans fyrsta mark eftir fjölmiðlafárið fyrr í haust.

„Ég hef gert öllum ljóst að ég vil vera áfram hjá þessu félagi í mörg ár til viðbótar. Ég vil ná árangri hér," sagði Rooney sem var sterklega orðaður við Manchester City þegar útlit var fyrir að hann væri á leið frá United.

„Trúið mér, ef ég hefði farið frá félaginu hefði ég farið frá Englandi," sagði Rooney um þær sögusagnir og bætti við að hann væri nú dauðfeginn að hafa ekki farið frá United.

„Auðvitað. Það eru svo margir leikmenn sem hafa farið í gegnum tíðina og ekki gengið vel í framhaldinu. Ég er mjög ánægður með að hafa verið áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×