Fótbolti

Socrates: Brasilíska þjóðin ætti að fá að kjósa landsliðsþjálfarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Socrates á HM 1986.
Socrates á HM 1986. Mynd/Getty Images/Bongarts
Socrates er einn þekktasti leikmaður brasilíska landsliðsins í gegnum tíðina en hann fór fyrir 1982-liðinu sem vann hug og hjörtu knattspynuáhugamanna á HM á Spáni. Socrates er lærður læknir og þekktur fyrir sterkar skoðanir. Hann hefur nú stigið fram og tjáð sig um hver fái að þjálfara brasilíska landsliðið á heimavelli.

Socrates sagði að árangur Brasilíu á HM í Suður-Afríku hafi ekki komið sér á óvart. „Brasilíumenn urðu ekki fyrir vonbrigðum því það bjóst enginn við að liðið ynni keppnina. Dunga leyfði ekki leikmönnum sínum að vera Brasilíumenn og það vantaði alla sköpun í liðið," sagði Socrates.

Hann segir að Luis Felipe Scolari ætti að taka aftur við landsliðinu en Scolari gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum fyrir átta árum síðan. Scolari er nú nýbúinn að gera tveggja ára samning við hjá brasilíska liðinu Palmeiras. Fólk í Brasilíu vonast eftir að hann geti sinnt báðum störfum næstu tvö árin og einbeitt sér síðan að landsliðinu síðustu tvö árin fyrir HM í Brasilíu sem fer fram 2014.

Socrates talaði líka um að landsliðsþjálfarastöðunni fylgdi mikil pressa frá þjóðfélaginu og að þjálfarinn yrði að læra að vinna með væntingar fólksins.

„Þjálfari fótboltalandsliðsins er jafnmikilvægur fyrir Brasilíu og forsetinn. Fólk ætti því að fá að kjósa hann," sagði Socrates en því hefur oft verið fleygt fram að það séu 192 milljónir landsliðsþjálfara í Brasilíu því allir landsmenn hafi skoðun á stjórnun liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×