Innlent

54% hækkun á sorphirðugjaldi í Árborg

Sorphirðugjald er óbreytt í Reykjavík en hækkaði í flestum sveitarfélögum. Á Fljótsdalshéraði er gjaldið hins vegar lægra en í fyrra.
Fréttablaðið/Heiða
Sorphirðugjald er óbreytt í Reykjavík en hækkaði í flestum sveitarfélögum. Á Fljótsdalshéraði er gjaldið hins vegar lægra en í fyrra. Fréttablaðið/Heiða
Árborg, Akranes og Akureyri hækka sorphirðugjald mest allra sveitarfélaga, samkvæmt könnun sem ASÍ gerði.

Í Árborg kostar hver sorptunna nú 22.300 krónur á ári en kostaði 14.500 krónur í fyrra. Hækkunin er 54 prósent. Á Akranesi er hækkunin 46 prósent. Gjaldið fer úr 19.190 krónum í 28.000 krónur. Akureyringar greiða í ár 22.000 krónur og hafa hækkað gjaldið úr 15.500 krónum í fyrra, eða um 42 prósent.

Ísfirðingar greiða hins vegar mest, 41.580 krónur á ári, sem er 10 prósentum hærra en í fyrra þegar gjaldið þar var 37.800 krónur.

ASÍ kannaði þessa gjaldtöku hjá fimmtán af stærstu sveitarfélögum landsins. Af þeim er Reykjavík eina sveitarfélagið sem ekki hækkar sorphirðugjaldið milli ára. Í Reykjavík kostar hver sorptunna 16.300 krónur.

Lægst er sorphirðugjaldið í Mosfellsbæ, 15.000 krónur. Eitt sveitarfélaganna fimmtán, Fljótsdalshérað, lækkaði sorphirðugjald milli ára. Þar er lækkunin 3 prósent og fer gjaldið í 19.600 krónur en var 20.213 krónur í fyrra. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×