Erlent

Tígrisdýrin eru að hverfa

Óli Tynes skrifar
Þessar tígulegu skepnur eru í mikilli útrýmingarhættu.
Þessar tígulegu skepnur eru í mikilli útrýmingarhættu.

Gersamlega hefur mistekist að vernda stofn tígrisdýra sem nú er í alvarlegri útrýmingarhættu að sögn stofnunar Sameinuðu þjóðanna um bann við sölu á afurðum dýra í útrýmingarhættu, CITES.

Willem Wijnstekers framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir að fyrir 20 árum hafi verið 100 þúsund tígrisdýr í Asíu en þau séu nú ekki nema um 3.200.

CITES heldur nú tveggja vikna ráðstefnu í Persaflóaríkinu Quatar. Alls eru 42 mál á dagskrá ráðstefnunnar allt frá því að stöðva veiðiþjófa sem sækja í fíla og nashyrninga til þess að banna sölu á hvítabjarnaskinnum.

Einnig má búast við hvössum viðræðum um algert bann við veiðum á bláugga túnfiski. Þar munu Vesturlönd takast á við Afríku- og Asíuríki sem veiða þennan fisk.

Langmest af honum endar í Japan þar sem hann er mjög vinsæll í sushi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×