Erlent

Handskrifað ritmál er að hverfa

Óli Tynes skrifar
Á útleið.
Á útleið.

Handskrifað ritmál er smámsaman að leggjast af og eftir einhver ár verður hætt að kenna það í skólum, segir framtíðarrýnirinn Johan Peter Paludan í samtali við danska blaðið 24timer.

Paludan starfar við Framtíðarrannsóknarstofnun Danmerkur. Hann segir að fjarskipti manna í milli séu nú nær eingöngu í gegnum lyklaborð annaðhvort á tölvu eða farsíma.

Paludan segir að eftir nokkur ár verði ekki einusinni þörf fyrir lyklaborð, þá tali menn inn í tæki sem breyti því í ritmál.

Mette Teglers kennari segir að í yngri bekkjum sé enn lögð áhersla á handskrift. Í eldri bekkjum sé hinsvegar langmest notast við tölvur.

Prófessor Nils Egelund við kennaraháskóla Danmerkur segir að sífellt erfiðara verði að lesa handskrift nemenda í takt við að tölvu- og farsímanotkun eykst stöðugt.

Hann hafi öðru hvoru tækifæri til þess að lesa handskrifuð verkefni nemenda og það geti verið mjög erfitt að skilja þau.

Það hafi ekki verið neitt vandamál fyrir 25 árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×