Enski boltinn

Murphy: Stjórarnir bera ábyrgðina á grófum tæklingum sinna manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Murphy, fyrirliði Fulham.
Danny Murphy, fyrirliði Fulham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Danny Murphy, fyrirliði Fulham, segir það vera undir knattspyrnustjórum liðanna komið hvort leikmenn þeirra spili jafnt gróft og sumir hafa orðið uppvísir að í undanförnum leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

„Leikmennirnir tala um að tæklingar séu árangursríkar og að þær hjálpi til þess að vinna leikina en í rauninni eru það stjórarnir sem eru að æsa upp sína leikmenn og senda þá alltof grimma út á völlinn," sagði Danny Murphy.

Á undanförum vikum hafa komið upp mjög ljót brot í ensku úrvalsdeildinni. Karl Henry, leikmaður Úlfanna, fótbraut Bobby Zamora, fyrir nokkrum vikum og var síðan sektaður um tveggja vikna laun fyrir að tækla illa Jordi Gomez hjá Wigan um síðustu helgi. Það hefur líka mikið verið fjallað um það þegar Nigel De Jong fótbraut Hatem Ben Arfa um síðustu helgi.

„Það er fáránlegt hverrnig leikmenn æða inn í tæklingar þessa dagana. Þeir eru ekkert að hugsa um hugsanlegar afleiðingar. Ég er ekki að segja að menn séu að reyna að fótbrjóta menn en menn verða að nota aðeins hausinn," sagði Murphy.

„Stjórinn ræður því hvernig leikmenn hans spila og hvernig þeir haga sér. Öll skip hafa skipstjóra og í fótbolta er það knattspyrnustjórinn sem ræður," sagði Murphy.

„Stjórarnir eru að senda leikmenn út á völl til þess að koma í veg fyrir að mótherjinn spili fótbolta. það er að gerast meira og meira í deildinni og sérstaklega hjá liðum eins og Stoke, Blackburn og Wolves," sagði Murphy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×