Fótbolti

Paulo Bento kemur með Portúgal á Laugardalsvöllinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Bento.
Paulo Bento. Mynd/AFP
Paulo Bento var í dag ráðinn þjálfari portúgalska landsliðsins í fótbolta og tekur hann við starfi Carlos Queiroz sem var rekinn fyrr í þessum mánuði. Paulo Bento gerði samning við portúgalska sambandið fram yfir úrslitakeppni EM 2012.

Portúgalska sambandið reyndi að fá Jose Mourinho, þjálfara Real Madrid, til að stýra landsliðinu í næstu tveimur leikjum á móti Dönum og Íslendingum en ekkert varð af því.

Portúgal spilar við Ísland á Laugardalsvellinum 12. október næstkomandi en liðið er í 4. sæti riðilsins eftir að hafa fengið aðeins eitt stig út úr fyrstu tveimur leikjum sínum á móti Kýpur og Noregi.

Paulo Bento er 41 árs gamall og gerði góða hluti með Sporting-liðið sem varð tvisvar bikarmeistari undir hans stjórn og endaði fjögur ár í röð í 2. sæti portúgölsku deildarinnar. Hann hætti hinsvegar með liðið í nóvember 2009 eftir að Sporting hafði ekki unnið deildarleik í tvo mánuði.

Paulo Bento er fyrrum landsliðsmaður en hann lék 35 landsleiki sem varnartengiliður áður en hann lagði skónna á hilluna árið 2003.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×