Enski boltinn

Kuyt: Bara tímaspursmál hvenær Torres fer að skora á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Kuyt og Fernando Torres fagna marki saman.
Dirk Kuyt og Fernando Torres fagna marki saman. Mynd/AP
Dirk Kuyt hefur ekki miklar áhyggjur af spænska landsliðsmanninum við hlið hans í Liverpool-sókninni þótt að lítið hafi gengið upp við markið hjá Fernando Torres það sem af er þessari leiktíð.

Fernando Torres fékk frábært færi eftir undirbúning Kuyt í markalausa jafnteflinu á móti Utrecht í Evrópudeildinni í gær en Spánverjanum tókst ekki að skora og hefur nú aðeins skorað eitt mark í sjö leikjum á þessu tímabili.

„Það er bara tímaspursmál hvenær Torres fer að skora á ný. Ég sagði það líka eftir Sunderland-leikinn þegar fólk var að tala um að hann væri ekki að skora mörk. Torres lagði upp tvö mörk í þeim leik og í gærkvöldi fékk hann gott færi. Hann er bara mannlegur og klikkar á færum eins og við hinir. Ég er viss um að mörkin hans fara að detta inn," sagði Dirk Kuyt sem var langbesti maður Liverpool í leiknum á móti Utrecht.

Dirk Kuyt skoraði eftir stoðsendingu frá Torres á móti Sunderland um síðustu helgi og vonast eftir því að geta launað greiðann á móti Blackpool um helgina. „Við bjuggum til góð færi saman á móti Sunderland og West Brom og ég tel að við séum góðir saman," sagði Dirk Kuyt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×