Enski boltinn

Birmingham sló út nágrannana í Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Zigic skorar hér sigurmark Birmingham.
Nikola Zigic skorar hér sigurmark Birmingham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Nikola Zigic tryggði Birmingham 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Aston Villa í kvöld og þar með sæti í undanúrslitum enska deildarbikarsins. B-deildarliðið Ipswich, lið Roy Keane, komst einnig í undanúrslitin eftir 1-0 sigur á úrvalsdeildarliði West Bromwich Albion.

Það varð allt vitlaust í leiksloks þegar þúsundir stuðningsmanna Birmingham þurstu inn á völlinn til þess að fagna sínum mönnum.

Nikola Zigic skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok eftir sendingu frá Cameron Jerome. Hann hafði heppnina með sér því skotið fór af varnarmanni og yfir Brad Fiedel markvörð Aston Villa.

Sebastian Larsson.Mynd/AP
Sebastian Larsson kom Birmingham í 1-0 strax á 12. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem Lee Bowyer fiskaði. Nikola Zigic virtist síðan koma liðinu í 2-0 en markið var dæmt af vegn umdeildar rangstöðu. Hann hafði ekki heppnina með sér þar en það breyttist allt á lokamínútunum.

Aston Villa nýtti sér að markið var dæmt af og Gabriel Agbonlahor jafnaði skömmu síðar eftir sendingu frá Ciaran Clark. Þetta var þriðja mark Agbonlahor í þremur leikjum á St. Andrews vellinum.

Roy KeaneMynd/Nordic Photos/Getty
Grant Leadbitter tryggði Ipswich, 1-0 sigur á West Bromwich með marki úr vítaspyrnu á 69. mínútu. Þetta var stór sigur fyrir stjórann Roy Keane sem gerði garðinn frægan á sínum tíma sem leikmaður Manchester United.

Birmingham og Ipswich eru því komin í undanúrslit enska deildarbikarsins en þangað komust West Ham og Arsenal einnig í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×