Erlent

Interpol lýsir eftir fleirum vegna morðsins í Dubai

Enn berast fréttir af morði á einum af leiðtogum palestínsku Hamas hreyfingarinnar í Dubai í janúar. Alþjóðalögreglan Interpol hefur lýst eftir 16 mönnum til viðbótar vegna morðsins.

Mahmoud al-Mab-houh var myrtur á hótelherbergi í Dubai og er talið nokkuð víst að þar hafi ísraelska leyniþjónustan Mossad verið að verki. Hamas liðinn var afkastamikill við að útvega hreyfingunni vopn og er talið að hann hafi verið í innkaupaleiðangri í Dubai. Morðingjarnir voru með vegabréf frá Bretlandi, Írlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Fullvíst þykir að vegabréfin hafi verið fölsuð. Mahmoud var fyrst svæfður og síðan kæfður og telja yfirvöld í Dubai að það hafi verið gert til að reyna að láta morðið líta út sem eðlilegan dauðdaga.

Interpol lýsti eftir 11 einstaklingum í febrúar vegna málsins og nú hafa 16 bæst við. Talið er að um tvo hópa hafi verið að ræða og að þeir sem nú er lýst eftir hafi aðstoðað fyrri hópinn við morðið, meðal annars við eftirlit fyrir utan hótelið. Interpol biður yfirvöld um allan heim að handtaka fólkið hvar sem til þeirra næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×