Teddy Sheringham telur að David Beckham geti vel spilað á þessum styrkleika næstu tvö til þrjú ár. Beckham verður 35 ára í maí en hann lék á sínum tíma með Sheringham hjá Manchester United.
Beckham fer á sinn gamla heimavöll á miðvikudagskvöld þegar AC Milan mætir United í síðari viðureign liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Sheringham lagði sjálfur skóna á hilluna þegar hann var 42 ára. „Svo lengi sem neistinn er til staður þá ertu með löngun til að keppa áfram í hæsta styrkleika. Hann hefur augljóslega getuna, hann er snjall leikmaður og með góða tækni," segir Sheringham um Beckham.
„Leikstíll hans snýst ekki um hlaup svo hann á meiri möguleika á að spila lengur. Þetta snýst bara um að vera áfram með löngunina til að láta líkamann ganga í gegnum það sem þarf."