Enski boltinn

Johnson: Kemur á óvart hve stutt er í toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Glen Johnson, leikmaður Liverpool.
Glen Johnson, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Glen Johnson, leikmaður Liverpool, segir að það komi sér á óvart hversu stutt það sé í raun í topplið ensku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir skelfilega byrjun liðsins í haust.

Liverpool vann aðeins einn af fyrstu átta leikjum sínum í haust en gengi liðsins hefur skánað umtalsvert eftir að gengið var frá sölu félagsins í síðasta mánuði.

Liðið hefur nú unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum og er komið í níunda sæti deildrainnar með nítján stig. Aðeins sex stig eru í Manchester City sem er í fjórða sætinu.

Efstu fjögur sæti deildarinnar tryggja liðum þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og þangað stefnir Liverpool.

„Það er enn frekar stutt í toppinn og ég er viss um að við getum náð okkar markmiðum ef við höldum áfram á þessari braut," sagði Johnson við enska fjölmiðla.

„Það kemur mér á óvart að fjórða sætið sé innan seilingar fyrir okkur, miðað við hversu mörgum stigum við höfum tapað á leiktíðinni."

Liverpool mætir Tottenham um næstu helgi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×