Enski boltinn

Ég kýldi Sir Alex

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson var áður knattspyrnustjóri Aberdeen.
Alex Ferguson var áður knattspyrnustjóri Aberdeen. Nordic Photos / Getty Images
Fyrrverandi leikmaður Aberdeen, Skotinn Frank McDougall, hefur greint frá því í nýrri ævisögu að hann kýldi eitt sinn Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóra liðsins.

Ferguson er frægur fyrir að láta leikmenn heyra það þegar hann er ósáttur en í þetta sinn fékk hann sjálfur að kenna á afleiðingunum.

Forsaga málsins er sú að McDougall sagði fyrir bikarleik með Aberdeen árið 1985 að hann væri heill heilsu og setti Ferguson hann í byrjunarliðið.

En McDougall var í raun meiddur og skipti Ferguson honum af velli eftir aðeins nokkrar mínútur. Ferguson hellti sér svo yfir hann á æfingu degi síðar.

„Ég bar mikla virðingu fyrir Fergie en hafði lært löngu áður að í slíkum aðstæðum lætur maður til sín taka og spyr svo spurninga síðar," segir í ævisögunni.

„Það var það sem ég gerði. Þetta var ekkert rothögg en ég hæfði hann í andlitið og hann féll í jörðina. Af öllu því heimskulega sem ég hef gert í gegnum tíðina er ekkert sem toppar þetta."

Ferguson var þó fljótur að rísa aftur á fætur og svara fyrir sig. Hann lét henda McDougall af æfingasvæðinu. Þeir voru þó fljótir að sættast og ritar Ferguson meira að segja kafla í bókina þar sem hann lofar sinn gamla lærisvein.

McDougall neyddist þó til að leggja skóna á hilluna aðeins 29 ára gamall vegna bakmeiðsla en skoraði alls 104 mörk í 207 leikjum með Aberdeen, St. Mirren og Clydebank á ferlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×