Enski boltinn

Rooney verður ekki seldur í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney var á bekknum í gær.
Wayne Rooney var á bekknum í gær. Nordic Photos / Getty Images

Talsmaður Manchester United segir það alrangt sem margir fjölmiðlar í Englandi halda fram í dag að Wayne Rooney sé á leið frá Manchester United.

„Það er algjör fásinna að gefa það í skyn að Wayne Rooney verði seldur í janúar," sagði talsmaðurinn.

Sunnudagsblöðin í Englandi halda því mörg fram í dag að þeim Rooney og Alex Ferguson, stjóra United, hafi sinnast og því verði sá fyrrnefndi seldur frá félaginu.

Rooney hefur verið í viðræðum um nýjan samning við United en þær hafa farið út um þúfur.

Rooney lenti í sviðsljósi fjölmiðlanna í haust eftir að upp komst um framhjáhald hans með vændiskonum á meðan eiginkona hans var ólétt.

Í kjölfarið gekk honum illa að ná sér á strik með United og var tekinn úr byrjunarliðinu. Ferguson sagði að það væri vegna ökklameiðsla.

Hins vegar sagði Rooney eftir leik Englands og Svartfjallalands í vikunni að ökklinn hefði ekkert angrað hann í haust - hann væri heill heilsu.

Engu að síður var Rooney aftur kominn á bekkinn er United gerði 2-2 jafntefli við West Brom í gær. Hann kom inn á sem varamaður þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

Þó nokkur dæmi eru um að leikmenn hafi verið seldir frá United eftir að hafa lent upp á kant við Ferguson. Frægasta dæmið er sjálfsagt þegar að David Beckham var seldur til Real Madrid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×