Enski boltinn

Liverpool áfram í fallsæti eftir tap í nágrannaslagnum

Tim Cahill fagnar marki sínu í dag.
Tim Cahill fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / AFP
Everton hafði betur gegn Liverpool í nágranna- og fallbaráttuslag á Goodison Park í dag, 2-0. Úrslitin þýða að Liverpool mun áfram verma fallsæti næstu daga en liðið er aðeins með sex stig eftir átta leiki í 19. sæti deildarinnar.

Tim Cahill kom Everton yfir á 34. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir laglega sókn. Spánverjinn Mikael Arteta tvöfaldaði forystuna fyrir þá bláklæddu í upphafi síðari hálfleiks með góðu skoti. Liverpool menn vildu fá dæmda rangstöðu þar sem Yakubu virtist byrgja Pepe Reina, markverði Liverpool, sýn þegar skotið reið af.

Besta færi Liverpool í leiknum fékk Fernando Torres undir lok leiksins en Tim Howard sá við honum. Þrátt fyrir þunga sókn undir lokin náðu þeir rauðklæddu ekki að komast á blað og fyrsti sigur Everton á Liverpool í fjögur ár staðreynd.

John Henry og félagar hans í NESV eignarhaldsfélaginu, sem keypti Liverpool í vikunni, voru á meðal áhorfenda í dag. Pressan heldur áfram að aukast á Roy Hogdson, knattspyrnustjóra Liverpool sem hefur farið einstaklega illa af stað með liðið. Spurning hvort að dagar hans með liðið séu taldir?



Everton - Liverpool 2-0


1-0 Tim Cahill (34.)

2-0 Mikael Arteta (50.)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×