Enski boltinn

Carlos Tevez vill fara frá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez reifst við Mancini þegar honum var skipt útaf á dögunum.
Carlos Tevez reifst við Mancini þegar honum var skipt útaf á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez er ekki lengur ánægður hjá Manchester City því samkvæmt frétt á Guardian þá hefur hann lagt inn formlega beiðni um að vera seldur frá enska félaginu. Tevez og stjórinn Roberto Mancini hafa deilt upp á síðkastið og argentínski framherjinn er víst ósáttur með varnarsinnaðan leik liðsins.

Fréttir af félagskiptabeiðni Carlos Tevez urðu opinberar aðeins nokkrum tímum eftir að Manchester City vann 3-1 sigur á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gær. City lék þá án Tevez sem hafði fyrir leikinn skorað 10 af 21 marki liðsins í ensku deildinni.

Tevez saknar líka dætra sinna sem búa í Argentínu og vill ekki vera svona langt í burtu frá þeim. Hann fékk tólf daga leyfi í febrúar til þess að fara til Argentínu eftir að yngri dóttirin hafði fæðst fyrir tímann.

Guardian telur að óánægja Tevez með leikskipulag Roberto Mancini eigi líka stóran þátt í óánægju leikmannsins. Það væri mikið áfall fyrir City að missa Tevez en sigurinn í dag var aðeins annar sigurleikur liðsins á árinu 2010 þar sem Tevez er ekki meðal markaskorara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×