Enski boltinn

Diouf með þrennu fyrir Blackburn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mame Biram Diouf í leik með United á síðasta tímabili.
Mame Biram Diouf í leik með United á síðasta tímabili. Nordic Photos / Getty Images

Mame Biram Diouf, lánsmaður frá Manchester United, skoraði þrennu í sínum fyrsta leik með Blackburn í kvöld.

Blackburn vann þá 3-1 sigur á Norwich í ensku deildabikarkeppninni en 21 leikur fór fram í keppninni í kvöld.

Wigan vann 3-0 sigur á Hartlepool en Ármann Smári Björnsson var ekki í leikmannahópi síðarnefnda liðsins í kvöld.

Úrvalsdeildarliðið Blackpool féll úr leik eftir 4-3 tap fyrir MK Dons í framlengdum leik.

Portsmouth vann Crystal Palace, 4-3 í vítaspyrnukeppni, eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Hermann Hreiðarsson var ekki með Portsmouth vegna meiðsla.

Bolton vann Southampton, 1-0, en Grétar Rafn Steinsson var ekki í leikmannahópi fyrrnefnda liðsins í kvöld.

Stoke vann 2-1 sigur á Shrewsbury, Sunderland vann Colchester 2-0, West Ham lagði Oxford 1-0 og Wolves vann Southend 2-1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×