Enski boltinn

Allt lagt undir um hátíðirnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í baráttu við Laurent Koscielny í leik Manchester United og Arsenal á dögunum.
Wayne Rooney í baráttu við Laurent Koscielny í leik Manchester United og Arsenal á dögunum. Nordic Photos / Getty Images
Eins og ávallt í ensku úrvalsdeildinni er mikið um annir hjá liðum deildarinnar um hátíðirnar. Framundan eru fjórar umferðir sem fara fram á aðeins tólf dögum en ballið byrjar með níu leikjum á sunnudag, öðrum degi jóla.

Þó svo að liðin séu að meðaltali búin að spila sautján leiki til þessa í deildinni í haust hefur engu liði tekist að vinna meira en tíu leiki. Stærstu lið deildarinnar hafa misstigið sig óvenjumikið í haust og stærstu félögin hafa öll tapað minnst fjórum leikjum. Undantekningin er topplið Manchester United sem er enn taplaust en hefur gert sjö jafntefli í sextán leikjum.

United hefur þó verið á góðu skriði að undanförnu og unnið sex af síðustu átta leikjum sínum. Liðið er í góðri stöðu, með 34 stig á toppnum og tveggja stiga forystu á næstu lið. United á þar að auki leik til góða.

„Markmið mitt er að reyna að halda toppsætinu eftir fjórða janúar,“ sagði Sir Alex Ferguson, stjóri United, en liðið á leik gegn Stoke á þeim degi. „Ef það tekst þá höfum við staðið okkur vel. Toppbaráttan í deildinni mun taka á sig sterkari mynd um hátíðirnar – ef veður leyfir,“ bætti hann við en sjö af tíu leikjum ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi var frestað vegna snjókomu og slæmrar færðar á götunum í Bretlandi.

Reyndar telur Nani, leikmaður United, að baráttan um enska meistaratitilinn standi aðeins á millli tveggja félaga – United og Chelsea. Síðarnefnda liðið er í fjórða sæti deildarinnar, þremur á eftir United. Á milli þeirra eru Arsenal og Manchester City, bæði með 32 stig.

„Ég á ekki lengur von á öðru en að annað hvort Manchester United eða Chelsea verði enskur meistari í vor. Vonandi verður það United,“ sagði Nani.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var ekki ánægður með þessi ummæli en hann stefnir nú að því að vinna titil með félaginu í fyrsta sinn í fimm ár.

„Allir hafa sína skoðun og enginn er fullkominn,“ sagði Wenger. „Við búum í samfélagi þar sem allir vita allt og það er skömm að segja: „Ég veit það ekki.“ Sjálfur veit ég ekki hver muni standa eftir sem sigurvegari og hef ég stýrt mínum liðum í alls 1600 leikjum á ferlinum. Ef Nani veit það þá hlýtur hann að vera 1600 sinnum gáfaðari en ég.“

Hann segir að ekkert lið hafi komist á almennilegt skrið í deildinni í vetur. „Alltaf þegar lið virðast við það það að komast á flug þá hikstar í vélinni. Þannig hefur það verið að undanförnu og kannski segir það sitt um styrk deildarinnar.“

Síðasta dæmið um það er Manchester City sem á mánudaginn tapaði fyrir Everton, 2-1, eftir að hafa verið taplausir síðan í lok október. City-menn áttu möguleika á því að komast í toppsæti deildarinnar og sitja þar um jólin í fyrsta sinn í 81 ár. En allt kom fyrir ekki.

En af risunum í Englandi hefur engum gengið jafn illa í haust og Liverpool en liðið er í níunda sæti deildarinnar, tólf stigum frá toppnum. Roy Hodgson tók við liðinu í sumar og hefur gengið á ýmsu í haust en til að mynda var skipt um eigendur eftir mikið fjölmiðlafár og mikla óvissu um fjárhagslega framtíð félagsins.

Liðið virtist hafa náð sér á strik í byrjun nóvember er liðið lagði þáverandi topplið Chelsea, 2-0, og um leið sinn þriðja deildarleik í röð. En síðan þá hefur lítið gengið og liðið tapað og unnið á víxl.

Góðu fréttirnar fyrir Liverpool eru þær að Steven Gerrard og Daniel Agger eru klárir í slaginn eftir meiðsli og geta því spilað þegar liðið mætir Blackpool á sunnudag. „Þetta er mikill styrkur fyrir okkur þar sem næstu dagar geta breytt öllu fyrir hvert einasta lið í deildinni,“ sagði Hodgson.

Arsenal og Chelsea mætast svo á mánudagskvöldið en síðarnefnda liðið mun þá freista þess að vinna sinn fyrsta deildarleik síðan 10. nóvember nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×