Enski boltinn

Ferguson efast stundum um sjálfan sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þrátt fyrir að vera með ólíkindum farsæll knattspyrnustjóri þá segist Sir Alex Ferguson, stjóri Man. Utd, stundum efast um hæfileika sína í starfi.

Ferguson hefur verið við stjórnvölinn hjá Man. Utd í 24 ár og unnið fjöldan allan af titlum á þeim árum.

Hann er með sitt lið á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um jólin. Verði United meistari í ár mun félagið verða það sigursælasta á Englandi með 19 meistaratitla.

"Auðvitað efast ég stundum. Þegar við töpum leikjum þá hugsa ég hvað hægt sé að gera til að snúa genginu við. Á endanum geri ég alltaf það sama. Knattspyrnustjórnun snýst um að taka ákvarðanir. Stundum tekur maður réttar ákvarðanir og stundum rangar. Það er bara þannig," sagði Ferguson.

"Það þarf oft að taka erfiðar ákvarðanir eins og þegar ég setti Berbatov á bekkinn í leiknum gegn Arsenal eftir að hafa skorað fimm mörk í leiknum á undan. Það var mjög erfitt að útskýra það fyrir leikmanninum. Eina ástæðan sem ég gat gefið var sú að ég taldi okkur eiga meiri möguleika að vinna með það lið sem ég stillti upp. Það reyndist rétt en maður getur aldrei verið viss."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×