Innlent

Katrín vill skýringar frá MK um barnaklámsmál

Menntamálaráðherrra ætlar að fá skýringar á því hjá skólameistara Menntaskólans í Kópavogi hvers vegna kennari sem tekinn var með barnaklám, hélt áfram kennslu. Ráðherra segir málið alvarlegt.

Margréti Friðriksdóttur, skólameistara Menntaskólans í Kópavogi, var kunnugt um að lögregla hefði til rannsóknar mál Björgvins Þórissonar, enskukennara við skólann, sem síðast liðinn föstudag hlaut dóm fyrir að hafa mikið magn af klámfengnu myndefni af börnum í tölvu á heimili sínu. Hann gekkst við að eiga umrætt myndefni og var skólameistara menntaskólans gerð grein fyrir því í bréfi, dagsettu 18. nóvember í fyrra.

Skólameistarinn brást ekki við og hélt maðurinn áfram kennslu, þrátt fyrir tilmæli aðstoðarsaksóknara og félagsmálaráðs Kópavogs, um að rík ástæða væri til að endurskoða hvort rétt væri að hann gengdi áfram störfum sem hefðu að gera með samskipti við börn. Menntamálaráðherra ætlar að fá skýringar hjá skólameistaranum.

„Þetta verður að sjálfsögðu skoðað því þetta varðar barnaheill," sagði Katrín. „Já, það gengur ekki að fólk sem verður uppvíst að kynferðisbroti vinni í skólum," sagði ráðherrann aðspurður hvort málið væri alvarlegt.

Katrín telur að það hefði átt að koma til greina að veita kennaranum leyfi frá störfum meðan rannsókn stóð yfir.

„En ég held að sé mikilvægt að skólar hafi skilgreinda verkferla þegar svona mál koma upp og þetta segir okkur það að þeir hafi ekki verið nægilega skilgreindir hingað til."








Tengdar fréttir

Skólameistari vissi um barnaklámsrannsókn

Skólameistari Menntaskólans í Kópavogi var kunnugt um að lögregla rannsakaði kennara við skólann fyrir að hafa mikið magn barnakláms í sinni vörslu. Þrátt fyrir tilmæli yfirvalda til skólameistarans um að rétt væri að endurskoða starfsvettvang kennarans var ekkert aðhafst og hélt kennarinn áfram að kenna nemendum skólans.

Foreldrafélag vissi ekki af barnaklámskennara

Foreldráð skólans sem barnaklámskennarinn starfar við vildi ekki tjá sig um veru kennarans í skólanum. Formaður foreldraráðsins sagði þó í samtali við fréttastofu að félagið hefði leitað upplýsinga um málið af hálfu skólans, en félagið hafði ekki vitneskju um málið eða rannsókn þess.

Starfsfólki MK veitt áfallahjálp

Starfsfólki Menntaskólans í Kópavogi var veitt áfallahjálp í dag, en mikið uppnám hefur verið í skólanum eftir að kennari var dæmdur fyrir að hafa barnaklám í fórum sínum. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari, segist enga vitneskju hafa haft um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×