Íslenski boltinn

Ólafur Kristjánsson: Baráttuna vantaði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Vilhelm

Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks var ósáttur við að sínir menn hafi ekki sýnt sama vilja og baráttu og í fyrstu þremur umferðum deildarinnar þegar lið hans lá fyrir Fylki í kvöld.

"Þetta var mjög bragðdauft af okkar hálfu. Við skorum reyndar gott mark í fyrri hálfleik og eigum smá sprett eftir það mark en tvö mörk frá þeim eftir aukaspyrnur gjörbreyttu leiknum. Fylkir vann sig inn í leikinn og kemst yfir. Það var góð staða fyrir þá. Þeir fá ekki mörg mörk á sig, við skoruðum fyrsta markið sem þeir fá á sig. Þeir kláruðu leikinn betur en við," sagði Ólafur

"Maður er alltaf ósáttur við eitthvað í mörkum sem maður fær á sig. Tökum þriðja markið á móti FH í síðasta leik. Auðvitað er maður ósáttur við að fá markið á sig en öll framkvæmd þar var stórglæsileg af þeirra hálfu. Hvað á maður að segja þá. Það var snilld þeirra sem að því standa sem verður til þess að það kemur mark."

"Ég ætla ekki að taka neitt af Fylkismönnum en mér fannst mikill sofandaháttur í dekkningunni hjá okkur í aukaspyrnunum sem eru fyrir miðjum velli. Það er enginn sem ræðst á boltann og það er sofandaháttur. Það er ekki nógu gott að fá tvö mörk á sig alveg eins."

"Fylkisliðið var mjög kraftmikið og ákveðið eins og í öllum þessum leikjum. Þeir fara langt á því. Það eru engin ný vísindi í fótboltanum að þú þarft að fara inn í alla leiki með baráttu og hugarfar. Þá skiptir fótboltaleg geta engu máli. Þeir höfðu mikið betri baráttu og hugarfar og nýttu sér það. Þeir spiluðu leikinn mjög vel."

"Það var mjög góð vinnsla í liðinu í tveimur fyrstu leikjunum og þá tvo leiki unnum við svolítið á hugarfari og vilja. Þriðja leikinn vorum við við það að taka á því sama og í kvöld töpum við á því að hafa það ekki. Ég veit að þetta er þarna en það þarf að virkja það," sagði Ólafur að lokum.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Fylkir á toppinn með KR

Það voru baráttuglaðir Fylkismenn sem tylltu sér á topp Pepsi-deildar karla ásamt KR í kvöld með góðum sigri, 3-1, á Breiðabliki í Árbænum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×