Enski boltinn

Er þessi maður í lélegu formi?

Richards er tæplega í lélegu formi ef hann er með lægri fituprósentu en sjá má á þessari mynd
Richards er tæplega í lélegu formi ef hann er með lægri fituprósentu en sjá má á þessari mynd

Varnarmaðurinn ungi Micah Richards hjá Manchester City vísar á bug ásökunum um að hann sé búinn að vera í lélegu formi á leiktíðinni.

Því hefur verið haldið fram að Richards sé of þungur og í lélegri æfingu í vetur, en hljómi það undarlega, er því ekki að neita að þessi tvítugi piltur hefur oft spilað betur.

Richards stimplaði sig ungur inn í enska landsliðið og er almennt talinn besti ungi varnarmaðurinn á Bretlandseyjum.

Hann hefur hinsvegar valdið nokkrum vonbrigðum í vetur og hefur átt það til að gera klaufaleg mistök í slakri vörn City.

Richards blæs á slúður um að hann sé í lélegu líkamlegu formi, en bendir á að hann sé aðeins mannlegur.

"Fólk er að kjafta um að ég hafi misst hraða og sé of þungur og hvað eina, en það er bull og vitleysa. Ef eitthvað er, er ég með lægri fituprósentu en á síðustu leiktíð. Leikmenn eru alltaf undir ströngu eftirliti með slíkt," sagði Richards í samtali við City Magazine.

"Ég legg alveg jafn hart að mér og venjulega og ég veit ekki til þess að ég hefi gert eitthvað stórkostlegt af mér svo fólk þurfi að velta sér upp úr því. Ég vil ekki láta svona tal koma í veg fyrir að ég bæti mig," sagði varnarmaðurinn, sem er staðráðinn í að hljóta náð fyrir augum Fabio Capello landsliðsþjálfara.

"Ég tek gagnrýni. Allir leikmenn eiga sína slæmu daga en ég er jákvæður og gef allt í hvern einasta leik. Auðvitað er ég ekki orðinn fullmótaður leikmaður. Ég væri fífl ef ég héldi að ég gæti ekki bætt mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×