Enski boltinn

Utandeildarlið sló út Blackpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Torquay.
Stuðningsmenn Torquay. Nordic Photos / AFP
Torquay, sem leikur í utandeildinni, gerði sér lítið fyrir í dag og sló út B-deildarlið Blackpool.

Það var Matt Green sem skoraði eina mark leiksins á 32. mínútu. Blackpool er í sautjánda sæti B-deildarinnar og eru um 60 sæti á milli liðanna.

Fjögur úrvalsdeildarlið eru fallin úr leik - Manchester City, Bolton, Stoke og Wigan.

Fimm hafa þegar gert jafntefli og þurfa að mætast aftur. Það eru Hull, Newcastle, Chelsea, West Brom og Portsmouth.

Liverpool er þessa stundina að spila við Preston og tvö úrvalsdeildarlið leika til viðbótar á morgun. Gillingham tekur á móti Aston Villa og Southampton mætir Manchester United á heimavelli.

Á mánudaginn tekur svo utandeildarlið Blyth á móti Blackburn.

Þrjú utandeildarlið verða í hattinum þegar dregið verður í fjórðu umferð keppninnar, þeirra á meðal er Torquay.

Histon verður einnig í hattinum en leik liðsins gegn Swansea var frestað í dag.

Það þriðja er Kettering Town sem vann 2-1 sigur á öðru utandeildarliði, Eastwood.

Þá var tvísýnt að B-deildarlið Derby kæmist áfram en liðið vann nauman 4-3 sigur á utandeildarliðinu Forest Green á útivelli.

Forest Green komst í 2-0 með tveimur mörkum á fyrstu 20 mínútunum en Derby jafnaði metin áður en fyrri hálfleik lauk.

Forest Green komst aftur yfir á 72. mínútu en Derby jafnaði fjórum mínútum síðar.

Heiamenn missti svo mann af velli á 86. mínútu og Steve Davies skoraði sigurmark Derby úr vítaspyrnu mínútu síðar.

Allir þeir leikir sem verða endurteknir fara fram þriðjudaginn 13. janúar en leikir Newcastle og Hull annars vegar og Southend og Chelsea hins vegar degi síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×